Fastar sýningar
Stjórn safnsins mótaði stefnu um að þema þeirra sýninga sem upp yrðu settar í nýja húsinu skyldi vera þráðurinn. Þráðurinn sem grunnur handíða og tenging sögunnar þ.e. fortíðar við samtímann. Lögð skyldi áhersla á að sýningarnar kölluðu fram tíðaranda, hughrif og stemningu, fremur en að sýna marga líka muni í senn.
Sýning á útsaumi
Þessari sýningu er sérstaklega ætlað að skapa upplifun og hughrif. Á sýningunni er til sýnis einkar fallegur nærklæðnaður kvenna frá fyrri tíð ásamt listilegum útsaumi, hekli og orkeringu. Til að skapa fjölbreytni og til að nýta sem best muni safnsins, er ýmsum munum skipt út á milli ára.
Halldórustofa
Halldórustofa er deild innan Heimilisiðnaðarsafnsins, staðsett í efri hluta gamla safnhússins. Hún er kennd við Halldóru Bjarnadóttur(1873-1981) sem var þjóðkunn kona. Hún var heimilisráðunautur Búnaðarfélags Íslands, gaf út ársritið Hlín um 44 ára skeið og stofnaði og rak Tóvinnuskólann á Svalbarði í Suður-Þingeyjarsýslu. Þekktust var Halldóra fyrir brautryðjandastörf er varða mennt og menningu kvenna og eflingu heimilisiðnaðar á tuttugustu öld.
Halldóra arfleiddi safnið að eigum sínum.
Ullarsýning
Í þessari sýningu geta gestir fengið að þreifa á íslensku ullinni og finna mismuninn á togi og þeli. Á sýningunni er að sjá afar falleg handgerð sjöl, prjónuð og hekluð úr togi eða þeli. Í sumum þeirra hefur þráðurinn verið jurtalitaður en í öðrum fá náttúrulegir litir að njóta sín. Margar gerðir af útprjónuðum vettlingum, sokkum ásamt ýmsu fleiru má sjá í þessari sýningu.
Sérsýningar
Á hverju ári frá því nýja safnhúsið var vígt árið 2003 hefur verið opnuð ný sýning íslensks textíllistafólks í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.
Um hefur verið að ræða bæði einkasýningar og samsýningar. Allar sýningarnar hafa verið mjög metnaðarfullar en um leið gjörólíkar og vakið mikla athygli sýningargesta og gefið hugmyndir um hve mikil fjölbreytni er í textílflóru Íslands. Sýningarnar eru gjarnan nefndar Sumarsýningar Heimilisiðnaðarsafnsins en hafa oftast staðið uppi frá vori til vors.
Yfirlit yfir Sumarsýningar safnsins aftur til ársins 2003.
2024
“Skynið fyllir vitund” er heiti sérsýningar safnsins fyrir sumarið 2024. Sýningin er unnin af Björgu Eiríksdóttur
Björg var í MA námi við myndlistardeild háskólans í Portó veturinn 2020-21, lauk MA í listkennslu frá HA vorið 2017, myndlist frá Myndlistarskólanum á Akureyri 2003 og Bed frá KHÍ 1991. Hún starfar við myndlist samhliða kennslu myndlistar, hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og er þetta fimmtánda einkasýning hennar.
2020 – 2021
Í þetta sinn eru það Arkir bókverkahópur, sem telur 11 íslenskar listakonur sem standa að sýningunni Spor í safninu. Nokkrar erlendar listakonur eiga einnig verk á sýningunni en þær eiga það sameiginlegt að hafa dvalið á Textílsetrinu/Textílmiðstöðinni í Kvennaskólanum á Blönduósi.
Vegna heimsfaraldurs COVID-19 voru gestakomur sumarið 2020 takmarkaðar. Sýningin var því framlengd um eitt ár.
2019
„Íslenska lopapeysan“ farandsýning – uppruni, saga og hönnun, var opnuð í safninu fimmtudaginn 30. maí. 2019. Um er að ræða samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarsafnsins, Hönnunarsafns Íslands og Gljúfrasteins. Sýningin var fyrst opnuð í Hönnunarsafnið Íslands 2017 en var svo sett upp árið 2018 á Nord Atlantes Brygge í Kaupmannahöfn og í Odense síðar sama ár