Rannsóknir og fræðsla
Rannsóknir
Á döfinni er að endurskipuleggja enn betur gamla safnhúsið með tilliti til munasafns Halldóru, en þar á meðal eru bréf og einkagögn sem þörf er á að gera verðug skil. Gögn úr safni Halldóru hafa verið notuð ásamt gögnum frá öðrum söfnum eða stofnunum til bókaútgáfu, meistara- og doktorsprófs.
Þetta sýnir hve mikilvægt er að hægt sé að stunda rannsóknir á safnkosti og vinna að ákveðnum verkefnum.
Munir safnsins geta verið frjór vettvangur rannsókna á ýmsum sviðum þjóðlífsins en einnig uppspretta hugmynda við hönnun og framleiðslu á textílvörum.
Áformað er að hægt og bítandi verði unnið markvisst að ofangreindum verkefnum en eins og ljóst má vera eru verkefni í söfnum óendanleg.


Fræðsla
Frá því safnið var upphaflega stofnað hefur safnfræðsla verið fastur liður í starfsemi safnsins og fer vaxandi.
Þá er algengt að nemendur af efri skólastigum leiti aðstoðar vegna ritgerða eða annarra verkefna. Einnig er veitt aðstoð vegna rannsókna á útsaumi, prjóni eða munsturgerð.
Þessi þáttur í starfsemi Heimilisiðnaðarsafnsins á væntanlega eftir að stóraukast ekki aðeins vegna nemenda frá Íslandi heldur einnig nemenda og annarra sem sinna margskonar listnámi víðsvegar úr heiminum.